júní 12, 2005

Óvænt heimsókn

Í gærkveldi hefði alveg verið í lagi hefði Gunni gleymt heilanum heima hjá sér, þar sem hann var heima sjálfur. Í staðinn gleymdi hann honum í skólanum.

Þegar ég kom heim í gærkveldi frá því að passa Gabriel sá ég að hann hafði gleymt að setja dótið, sem við erum að reyna að selja, (eitthvað barnadót sem við höfum ekki pláss fyrir lengur) inn, það stóð því út á stétt og beið eftir að verða stolið.

Hann hafði þó ekki gleymt að fara út með ruslið, bara að fara með það í gáminn, því það stóð fyrir utan íbúðina og ungur skunkur var að gæða sér á pizzu afgöngum.

Ég tók ekki eftir skunknum strax, ekki fyrr en hann sperrti sig allan upp og hvæsti. Ég pissaði næstum á mig mér brá svo mikið og var hrædd um að hann myndi taka sig til og sprauta vibbalykt á mig, húsið eða dótið. Eftir smá stund fór hann í burtu, hefur eflaust fengið brjóstsviða eftir pizzurnar, og ég gat farið inn með mig og dótið.

Við Gunni hlógum síðan að þessu, maður getur gert grín þegar lyktarhættan er gengin yfir.

Annað í fréttum er að ég er að fara að hætta í vinnunni minni, mér líkaði ekki alltaf við framkomu yfirmanns míns og var líka orðin svolítið leið á starfinu, fékk ekki að prófa nýja hluti eins og rætt var um í byrjun heldur var föst í teikningum.

Síðasti dagurinn minn er næstkomandi fimmtudagur, þá kemur einmitt fjölskylda Gunna eins og hún leggur sig. Ég get því aðeins slappað af, unnið í því að fá nýtt starf og lært fyrir GRE.

Ég er orðin þvílíkt spennt að hætta í vinnunni en það hefur komið mér á óvart hvað ég er ennþá dugleg, hef ekkert verið að hangsa, ekki ennþá a.m.k. en það eru nokkrir dagar eftir, sjáum til :)

Posted by Solla Beib at 12.06.05 14:39
Comments