maí 24, 2005

Seattle ferðin

Jæja, loksins að ég gef mér tíma til að segja aðeins frá ferðinni til Seattle.

Við mættum á svæðið seint á þriðjudagskvöldið og Líney var svo gestrisin að láta okkur eftir herbergið sitt (óþolandi gestir, stoppum heillengi og hertökum íbúðina:)).

Við náðum að túrhestast svolítið, fórum t.d. í útsýnisbíltúr, gönguferðir, skoðuðum skipaskurðinn, nálina og hluta af miðbænum. Okkur líst mjög vel á borgina og ég gæti alveg hugsað mér að búa þar.

Ég fór líka að skoða University of Washington, talaði við nokkra prófessora í verkfræðideildinni og ætla að sækja um inngöngu fyrir haustið 2006. Þá er bara að fara að undirbúa sig fyrir GRE.

Við þurftum að skreppa yfir landamærin til Kanada vegna áritunarmáls og eyddum einni nótt í Vancouver.

Borgin leit bara vel út, við keyrðum þó í gegnum ansi skuggaleg hverfi, ég hefði sko ekki viljað vera ein á ferð eða um nótt þar.

Við fórum í Stanley Park sem er stór almenningsgarður og ætluðum í lest en hún var lokuð (á laugardegi, ég skil þetta eiginlega ekki) svo við fórum í sædýrasafnið í staðinn. Þetta var mjög fínt safn, Arndís Dúna var virkilega hrifin og vildi ekkert fara heim.

Kvöldunum eyddum við að mestu í súkkulaðiát, almennt spjall og spilamennsku, þ.e.a.s. Settlers spilamennsku, við fengum að prófa sæfara stækkunina, hún er skemmtileg tilbreyting, aldrei að vita nema við Gunni bætum henni í safnið.

Yfir höfuð var ferðalagið hið allra besta, gaman að hitta Líneyju og Helgu og alla hina og borgin var mjög aðlaðandi. Við hefðum þó viljað geta skoðað hana betur en það er takmörk fyrir því hvað er hægt að gera með stelpuling sem þarf að leggja sig í hádeginu.

Hver veit nema við verðum þar að ári :)

Ég var líka að setja inn myndir frá ferðinni, 23.-30. apríl og 17.-18. maí, sem sagt algjört myndamaraþon.

Posted by Solla Beib at 24.05.05 14:11
Comments