mars 30, 2005

Í fréttum er þetta helst

Þessa vikuna hef ég verið að vinna 8 tíma á dag í staðinn fyrir 7. Mér finnst mikið muna um þessa einu klukkustund og er yfirleitt farin að telja niður mínúturnar. Það skrítna er að ég tek ekki eftir því hvað tímanum líður fyrr en klukkan er orðin hálf fjögur (þá fer ég yfirleitt heim). Það munar líka miklu að geta ekki eytt eins miklum tíma með Arndísi á kvöldin, ég er bara ekki orðin vön því að þurfa að flýta mér að öllu og því hefur rútínan hennar raskast svolítið og hún ekki farið að sofa fyrr en kl. 8.

Ástæðan fyrir þessum aukatíma er sú að ég ætla að taka mér frí á föstudaginn. Frídeginum ætla ég að eyða með sjálfri mér, dagskráin er ekki alveg komin á hreint en líklegt er að dagurinn byrji á leikfimitíma, svo fari ég heim og komi Arndísi á leikskólann í rólegheitum. Eftir það er ferðinni heitið í smá verslunarleiðangur, það er gott að geta farið í búðir án barnanna minna tveggja, ég er þegar byrjuð að skrifa lista yfir hluti sem mig vantar en flest á listanum er handa Arndísi Dúnu.

Páskahelgin var mjög notaleg, Vala og Óliver komu í heimsókn, sem er alltaf ánægjulegt, og við fórum í mat til Ingu Dóru og Björns og fengum dýrindis lambasteik.

Á páskadag fórum við í eggjaleit, Arndísi Dúnu fannst það alveg hrikalega skemmtilegt, meili finna egg, meili finna egg!!

Vala og Óliver þurftu því miður að kveðja snemma vegna anna og við fórum því ein heim úr eggjaleitinni. Þar beið okkar páskaegg sem Arndís Dúna fékk frá ömmu Arndísi. Arndísi fannst eggið afskaplega gott og hefur eflaust aldrei borðað jafnmikið af súkkulaði í einu. Hún var þó sem betur fer búin að borða staðgóðan morgunmat áður en hún byrjaði á egginu. Við foreldrarnir fengum líka okkar skammt, ég var næstum búin að gleyma hversu hrikalega gott Siríus súkkulaðið er.

Eftir hádegið fórum við í dýragarðinn, sáum þetta venjulega, górilluna, gíraffann, ljónið og fílinn. Í þetta skiptið urðum við vitni að fílspissi, ekki bara hjá einum fíl heldur tveimur, þvílíkt magn sem kemur út úr þessum dýrum, þeir hljóta að þurfa að drekka ansi mikið á hverjum degi. Arndísi Dúnu fannst þetta mjög merkilegt og þegar við minnumst á annað hvort dýragarðinn eða piss þá talar hún um fílana og pissið þeirra.

Posted by Solla Beib at 30.03.05 21:24
Comments

Ójá.. slef.. hökkuðum í okkur nóa páskaeggið sem við fengum á spídígonsales hraða, nógu hægt samt til að njóta bragðsins.. nammi, namm...

Posted by: Hulda at 31.03.05 13:26

Hæ ætli ég reyni ekki að hringja um næstu helgi hef ekki náð á þér í marga mánuði.Allt gott að frétta héðan.

Posted by: amma Dúna at 04.04.05 15:24