Í dag fórum við Gunni í Circuit City og keyptum meira dót, við getum náttúrulega ekki hætt að kaupa þegar við erum byrjuð og núna er Gunni kominn í lið með mér í þessu. Við fjárfestum í meira innra minni í tölvuna og rafhlöðum fyrir myndavélina (sem kemur vonandi næstu daga í póstinum). Ég held að við séum hætt í bili, a.m.k. fram að mánaðarmótunum :)
Annars hefur helgin verið heldur viðburðarlítil, í gærkveldi fórum við Gunni á ódýra barinn í nágrenninu og fengum okkur bjór. Við ætluðum að fara að spila pool, en vorum svo óheppin að einhver gamla karla hljómsveit var búin að yfirtaka barinn og færa pool borðið út í horn. Ég held að það hafi verið 2 gestir fyrir utan okkur á barnum og við flýttum okkur að klára bjórinn og hlupum út svo við þyrftum ekki að hlusta á ellibelgina. Þeir hafa örugglega verið gamlir félagar eigandans sem er yfirleitt manna fyllstur á barnum.
Í dag ætluðum við að skreppa aðeins í sundlaugina fyrir utan íbúðina en því miður var hún alveg ísköld. Hún er nefnilega ekki upphituð og veðrið hefur ekkert verið til að hrópa húrra fyrir undanfarið og sólinni hafði ekki tekist að hita hana nógu mikið upp. Við hoppuðum einu sinni út í en komumst aftur upp úr á methraða skrækjandi eins og smástelpur. Við röltum því bara í sundlaugina í þarnæsta húsi sem er upphituð og nutum lífsins þar.
Posted by at 29.07.01 21:13