júní 05, 2002

Gönguferðin ógurlega


Við lögðum af stað um hádegisleytið á föstudegi og komum til baka um kvöldmatarleyti á sunnudegi. Markmið ferðarinnar var að ganga um
Sespe náttúrsvæðið
og enda í
heitu laugunum
í Sespe.

Ferðin hljómaði mjög vel frá upphafi því þegar við vorum að leggja af stað þá sagði Markus mér að hann hafi lesið á netinu að áfangastaðurinn, heitu laugarnar, væru þriðji vinsælasti nektarstaðurinn í USA. Mig grunaði alltaf að hann hefði eitthvað svona í pokahorninu en hann þvertók fyrir það, sagði að hann hefði ekki vitað af þessu fyrr en um morguninn áður en við lögðum af stað, jeje þýski perri!

Allavega þá gengum við í 5 klst. fyrsta daginn. Hittum alls konar skrítið fólk og tókst að týnast allrosalega einu sinni. Það var þegar Markus sagði að nú væri gott að hafa Rambo sveðjuna sína með að ég kveikti á perunni og fattaði að við vorum ekki lengur á stígnum heldur komnir eitthvert lengst út í rassgat á kaf í einhvern ógeðslegan gróður sem rispaði mig alveg í klessu á fótunum!

Um kvöldið lögðumst við svo til hvílu undir berum himni (rosa matsjó) eftir að hafa hengt bakpokana okkar upp í tré svo birnirnir myndu ekki ná þeim.

Næstu klukkutímunum eyddi ég svo í það að glápa upp í himininn stjarfur af ótta því það fyrsta sem ég heyrði eftir að ég skreið í svefnpokann voru bjarnsöskur. Öskrin hættu aldrei og þeim fjölgaði og þau nálguðust og urðu háværari o.s.frv. Ég get fullyrt að ég hef sjaldan verið jafnhræddur á ævinni. Um leið og ég lokaði augunum sá ég fyrir mér alls konar óhugnalega dauðdaga, t.d. björn stigur á hausinn mér og svoleiðis!

Næsta dag lögðum við svefnvana af stað og gengum í nokkra klukkutíma og komumst á áfangastað. Þar voru því miður engar berar stelpur og sem betur fer engir berir gamlir krumpaðir karlar. Ég var bara sáttur, verandi trúlofaður maður, en ég held að Markus hafi nú verið að vona að hitta einhverjar súpergellur þarna.

Við skelltum okkur svo í sund í heita læknum og fórum að sofa. Það var nokkuð sérstakt að hafa svona heilan læk sem var funheitur. Við byrjuðum hjá uppsprettunni þar sem vatnið var nánast sjóðandi og svo gengum við bara niður með læknum þangað til vatnið hafði kólnað niður í þægilegt hitastig.

Þriðja daginn löbbuðum við svo sömu leið til baka og komumst að því að við höfðum ekki bara týnst á hinni leiðinni heldur fórum við einhverja brjálaða leið sem var miklu, miklu erfiðari heldur en "raunverulega" leiðin. Næst ætla ég að taka meira mark á kortinu!

Í heildina litið var þetta ekki alveg nógu góð ferð því leiðin sem við gengum var ekkert sérlega falleg. Eiginlega var landslagið bara voða venjulegt og ég tók ekki nema 1 mynd eða eitthvað!

Svo í lokin ætla ég að skrifa nokkur minnisatriði fyrir mig svo ég gleymi engu í næstu ferð og geri ekki sömu mistökin tvisvar.

Joð og hreinsitöflur eru algjörlega nauðsynlegar svo maður fái ekki niðurgang af pöddunum í vatninu. Markus fær plús í kladdann fyrir að hafa verið með svona töflur.

Nokkrar dósir af bjór eru alveg þess virði af hafa pokann þyngri. Það er a.m.k. auðveldara að sofna eftir nokkra bjóra þegar birnir öskra allt í kringum mann. Ég hefði sko getað notað eina kippu þegar birnirnir öskruðu sem mest.

Taka nóg af plástrum með því þó að skórnir manns hafi aldrei meitt mann áður þá þýðir það ekki að þeir muni ekki meiða mann núna (fæturnir á mér eru að stækka eða eitthvað).

Algjört klúður að vera í hvítri skyrtu. Skyrtan mín er líklega ónýt eða a.m.k. þarf mömmutöfra til að ná skítnum úr henni.

Hundar eru ekki bestir vinir manns heldur er það moskítóbitslyf (ó sweet relief). Einnig er líka hægt að vera skynsamur og sofna ekki undir berum himni án þess að bera á sig pöddubitsvarnarkrem.

Það er alveg heimskt að taka með sér vasaljós með tómum rafhlöðum, djísus kræst!

Posted by Gunnar Gunnarsson at 05.06.02 19:15
Comments