apríl 30, 2004

Ég vil hunda!

Í dag var ég að horfa á sjónvarpið á meðan Arndís Dúna lék sér á gólfinu. Í einu af auglýsingahléunum kom hundaauglýsing. Þá tók Arndís aldeilis við sér og varð mjög spennt og byrjaði að reyna að gelta (úffa). Þegar auglýsingunni lauk tók við einhver sjampóauglýsing og þá varð sú litla ansi reið, öskraði og grét. Það er greinilegt að hún er ekki hrifin af sjampóum, já nema ef það væri hundasjampó :)

Við fórum í heimsókn til Jonnu og Braga í dag, þar fær hún sinn skammt af sykri svo ömmur og afar heima á Fróni þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að hún þjáist af sykurleysi. Hún raðaði í sig smákökum og muldi auðvitað helminginn niður á gólf. Við Gunni kunnum ekki við annað en að sópa áður en við fórum heim.

Ég fór líka í Baby Gap í dag og missti mig svolítið. Keypti sumardress handa prinsessunni, ég komst nefnilega að því um daginn þegar hitinn fór í 33°C að það er ekki nóg fyrir sullukollur að eiga eitt sumardress.

Posted by Solla Beib at 11:38 EH | Comments (120)

apríl 21, 2004

Besh

Þessi snúlla er að verða meiri og meiri snillingur :)

Hún er farin að segja ýmist besh eða bæ bæ þegar hún kveður. Hlustar væntanlega á foreldra sína, þau segja þetta alveg til skiptis eftir við hverja þau tala. Hún hefur líka reynt að segja takk, eða það er að minnsta kosti það sem við höldum :)

Hún er líka farin að sleppa sér þegar hún stendur og í gærkveldi þá stóð hún upp á miðju gólfi án nokkurrar aðstoðar. Það verður ekki langt í að hún fari að hlaupa um allt.

Við förum í barnatíma saman á mánudögum, þar er sungið, marserað, farið út að leika, fengið sér snakk og sungið meir. Arndís kemur alveg dauðþreytt heim og það er ekkert mál fyrir hana að taka lúrinn sinn. Ég hitti hins vegar alls kyns fólk, aðallega mæður þó og nýt þess að fylgjast með Arndísi skemmta sér konunglega.

Posted by Solla Beib at 08:25 EH | Comments (227)

apríl 03, 2004

Ég kann líka að standa, ligga ligga lá lá

Það kom að því, Arndís Dúna er farin að standa upp í tíma og ótíma. Áður gerði hún þetta bara svona spari en núna stendur hún upp við hvað sem er og er byrjuð að fikra sig meðfram í rúminu og við stofuborðið.

Henni finnst hún rosalega merkileg, þvílíkt hróðug alltaf á svipinn þegar hún stendur upp.

Hún er líka orðinn mjög fær í að skríða, fer yfir allar hindranir svo sem önnur börn, mömmu sína, þröskulda og hækkanir (svona einna tröppu hækkun).

Hún hefur hingað til ekki meitt sig neitt á öllu þessu brölti en miðað við gauraganginn á henni þá það eftir að breytast eitthvað.

Einnig er hún farin að skamma mömmu sína, eða það hljómar að minnsta kosti þannig. Hún kallar á mig mjög skýrt, mamma, afskaplega kröftuglega og krefjandi eins og ég sé að gera eitthvað algjörlega vitlaust :)

Posted by Solla Beib at 11:47 EH | Comments (56)