mars 17, 2004

Krúsidúlla

Ýmislegt hefur drifið á daga Arndísar Dúnu síðan síðast enda hef ég ekki skrifað hér í háa herrans öld.

Hún er orðin ansi góð í að skríða, fer mun hraðar yfir en hún gerði, eiginlega hraðar en ég geri mér stundum grein fyrir.

Henni finnst ekkert rosalega gaman að leika sér að dótinu sínu, fjarstýringar, myndbandstæki spólur, pennar og reyndar flest sem hún á ekki að vera að leika sér með er miklu meira spennandi.

Hún er líka að verða algjör sjónvarps- og útvarpsfíkill. Ef hún er þreytt og pirruð er nóg að setja "Uppáhaldslögin okkar" í tækið og þá er allt gott, a.m.k. í smá stund. Ég nota þetta stundum þegar ég er að taka til matinn hennar og hún er orðin svöng. Þá fæ ég smá tækifæri til að gera það án þess að hlusta á væl og grátur.

Þegar hún er í bílnum og er orðin leið þá er líka nóg að setja "Raffa" í tækið en það er geisladiskur sem hún fékk gefins hér úti. Áhrifin eru hreinlega með ólíkindum. Einnig ef hún er reið þá stífnar hún upp og það er mjög erfitt að róa hana niður nema þegar ég byrja syngja einhver lög af disknum þá slakar hún á og byrjar að veifa höndunum og klappa.

Ég fæ stundum samviskubit yfir því hæði hennar (segir maður hæði?) og hef reynt að stilla að minnsta kosti sjónvarpsglápi í hóf.

Hún er líka farin að vera rosalega dugleg að borða sjálf og mótmælir stundum og neitar að borða nema hún fái að halda á matnum. Brauð er ennþá í uppáhaldi en hún er líka dugleg að borða kartöflur, banana, ost og ýmislegt fleira. Í algjöru uppáhaldi þessa dagana eru þó jarðaber. Hún situr með þau og kjamsar og kjamsar og er eldrauð í kringum munnin (eiginlega bara alveg í framan). Hún hatar því miður að láta þvo sér í framan, ég held svei mér þá að það sé það óþægilegasta sem hún lendir í. Ég hef notað það ráð að leyfa henni að bíta í þvottapokann á meðan ég þvæ henni, þá er það miklu skárra.

Posted by Solla Beib at 12:31 EH | Comments (114)