Arndís Dúna er aldeilis komin á skemmtilegan aldur, hún er farin að apa mikið eftir foreldrum sínum.
Í gær fór hún alveg á kostum, kom með eitthvað af nýju dóti og rifjaði upp gömul trix.
Hún sagði oó, svona eins og stubbarnir, ég sver ég er ekki alltaf að láta hana horfa á stubbana, ég held hún hafi aðallega tekið þetta upp eftir Gabríeli vini sínum, hann segir þetta oft. Við foreldrarnir erum líka stundum að segja þetta sjálf.
Hún sýndi okkur líka hvað hún er orðin stór, teygði hendurnar upp í loftið en það höfum við verið að reyna að kenna henni lengi án mikils árangurs.
Hún er einnig búin að læra að blása í flautuna sína og nær alveg ágætis tón, hún verður náttúrulega alveg hrikalega hróðug sjálf þegar henni tekst svona hlutir enda erum við foreldrarnir duglegir við að brosa og klappa fyrir henni.
Þegar henni líkar ekki maturinn klemmir hún saman varirnar og hristir hausinn og stundum á hún til að frussa honum út um allt, mér til mikillar ánægju.
Í gær var Arndís Dúna ein heima með pabba sínum á meðan mamma fór í verslunarferð til Camarillo.
Þau höfðu það bara ansi gott saman, fóru í gönguferð og léku sér saman á gólfinu og hún var bara sátt þegar ég kom heim rétt fyrir svefntímann til að gefa henni (enda keypti ég auðvitað eitthvað handa henni).
Þessar tennur halda bara áfram að koma í ljós, núna glittir í 6. tönnina. Þá eru komnar 4 í efri góm og 2 í neðri.
Ég mældi þyngd Arndísar á barnavog hjá vinkonu minni og í ljós kom að hún var tæp 19 pund í fötum, þá er hún kannski 18,5 ber. Það er u.þ.b. 8,4 kg.
Í fyrradag uppgötvaði Gunni nýja tönn hjá Arndísi Dúnu í efri góm, hægra megin, þá eru tennurnar orðnar 5 í heildina og ég held að ekki sé langt í þá sjöttu vinstra megin. Engin furða þótt hún sé búin að sofa frekar illa undanfarið.
Arndís hefur verið að reyna að skríða en ekki tekist ennþá, núna í morgun gerði hún þó svolítið nýtt, hún velti sér út af mottunni (það er svo sem ekki nýtt) en hóf síðan að ýta sér aftur á bak með höndunum, eftir smá stund var hún búin að færa sig aftur á bak um metra.
Það kom einnig í ljós að ég þarf að moppa fljótlega því það safnaðist svolítið af ryki í fötin hennar. Mér sem finnst ég alltaf vera að moppa, það er reyndar aðallega undan eldhúsborðinu því Arndís Dúna er ekki alveg komin með stjórn á höndunum þegar hún borðar "fingramat" eins og seríós og eplabita.
Hún er líka komin með ansi skemmtilegan leið til að láta mann vita ef hún vill ekki einhvern mat. Hún lætur sér ekki nægja að loka munninum heldur grettir hún sig ógurlega í leiðinni og snýr höfðinu undan.
Núna er Arndís komin með tvær nýjar tennur, sem sagt 4 í heildina. Það rétt grillir í þessar tvær nýju en þær komu núna um áramótin.
Þótt það bara rétt grilli í þær þá er vel hægt að finna fyrir þeim. Þær eru beittar og hún er farin að nota þær.
Einnig er hún farin að sýna skrið tilþrif, Gunni sá hana ná einu skrefi í gær og svo datt hún á magann og í dag hefur hún verið að reyna eitthvað líka.
Fljótlega þarf ég að fara að hlaupa á eftir henni.
Áðan sat Arndís Dúna í stólnum sínum og var að maula kex á meðan ég fékk mér morgun/hádegismat.
Gunni var á leiðinni út að hjóla og setti upp hjólahjálm.
Allt í einu byrjaði Arndís Dúna að gráta, sérstaklega ef Gunni kom nálægt henni. Við föttuðum ekkert strax, ég hélt hún væri kannski eitthvað þreytt en síðan áttaði ég mig á því að hún var skíthrædd við pabba sinn.
Mér fannst þetta nú svolítið fyndið, það er ekki eins og hann væri með grímu, bara einn skrítinn hjálm :)