desember 28, 2003

Englandsdrottning hvað

Arndís Dúna hefur tekið upp mjög skemmtilegan sið en það er að veifa í tíma og ótíma. Ef við biðjum hana um að segja bless byrjar hún stundum að veifa en ekki alltaf.

Síðan byrjar hún að veifa upp úr þurru, bara sísvona til hinna og þessa.

Veifið er mjög fallegt, ekki of mikið og ekki of lítið svona eins og prinsessu sæmir.

Posted by Solla Beib at 09:04 EH | Comments (282)

desember 17, 2003

Bababababa

Orðaforði Arndísar Dúnu hefur hér með tvöfaldast.

Í gærkveldi sagði hún babababa. Gunni er auðvitað mjög ánægður með það enda greinilegt að hún er að segja pabbi :)

Hún er greinilega snillingur þetta barn.

Posted by Solla Beib at 10:59 FH | Comments (268)

desember 14, 2003

Mamamamamamama

Núna er Arndís Dúna farin að segja mamamama, mér til mikillar ánægju. Ég held nú samt að þetta þýði frekar nammi namm þar sem hún segir þetta aðallega við matarborðið en hvað um það, gott að geta ímyndað sér að þetta sé ætlað mér :)

Dagurinn í dag var frekar erfiður, Arndís Dúna vaknaði tvisvar sinnum í nótt, fór snemma á fætur og neitaði að taka morgunlúrinn á réttum tíma. Í þokkabót þurftum við Gunni bæði að vera að vinna svo þetta var svolítið púsluspil.

Kannski að hún sé strax komin með unglingaveikina :)

Posted by Solla Beib at 09:19 EH | Comments (287)

desember 07, 2003

Nýjasta nýtt

Í dag byrjaði Arndís Dúna að gretta sig með því að fitja upp á nefið. Ekki er nóg að hún geri það heldur andar hún hratt með nefinu í leiðinni og býr til hljóð.

Þetta er ýkt krúttlegt en þegar við vorum að taka myndir af henni áðan þá vildi hún ekkert brosa bara gretta sig.

Aldrei að vita nema manni takist að kenna henni að ulla á morgun.

Uppfært:
Hér er mynd af svipnum.




Posted by Solla Beib at 06:33 EH | Comments (253)

desember 01, 2003

Sefur rótt

Síðasta nótt var sérstök í lífi Arndísar Dúnu. Hún svaf alla nóttina án þess að vakna. Jibbíííí.

Þetta þýddi náttúrulega að ég fékk að sofa líka. Náði 7 tíma svefni bara svona eins og venjulegt fólk ;) Ég held ég hafi ekki náð að sofa svo lengi síðan löngu fyrir fæðingu litlu prinsessunnar.

Ég þurfti ekki einu sinni að fá mér kaffi í morgun. Mikið vona ég að hún haldi áfram að sofa svona eins og engill.

Að öðru, uppáhalds "leikfangið" hennar Arndísar Dúnu þessa dagana er trésleif sem ég lánaði henni um daginn. Hún borðar hana og notar hana til að lemja mann og annan. Ótrúlegt hvað það er miklu skemmtilegra að leika sér með "ekki dót" heldur en dót :)

Posted by Solla Beib at 05:34 EH | Comments (328)