Í gær fannst okkur sem gómurinn á Arndísi Dúnu væri eitthvað óvenjulega beittur og kíktum en fundum enga tönn.
Í dag (20. nóvember) kíkti ég aftur og sá þá glitta í tvær tennur. Önnur er komin að mestu upp en hin er svona hálfnuð.
Arndís Dúna hefur nú samt verið alveg ótrúlega róleg yfir þessu öllu, ég tók ekki eftir að hún fyndi neitt til sem betur fer en hún hefur þó verið að bíta í brjóstin á mér undanfarið (of miklar upplýsingar fyrir suma), frekar óþægilegt.
Við foreldrarnir erum náttúrulega alveg hrikalega montin af stúlkunni, verst að hún getur farið að bíta almennilega núna.
Við vorum rétt í þessu að koma úr 6 mánaða skoðun. Læknirinn sagði að Arndís Dúna liti út fyrir að vera heilbrigð og yxi samkvæmt "áætlun".
Hún var orðin 16 pund og 7 únsur, það er c.a. 7.5 kíló. Höfuðmál hennar er 43 cm en ég tók ekki eftir því hvað hún er orðin löng.
Læknirinn fullvissaði okkur um að hún þyrfti ekki að vera að drekka á nóttunni (hún fær að súpa einu sinni á nóttu) og gaf okkur ráð til að fá hana til að hætta að vakna á næturna. Mikið vona ég að það virki.
Að öðru þá er nýjasta tískan hjá Arndísi Dúnu að skríkja einhvers konar hátíðnihljóði, þetta hljóð gefur hún frá sér hvort sem hún er ánægð eða óánægð svo það er ekki nóg að heyra hljóðið til að vita hvernig henni líður heldur þarf að sjá framan í hana.
Hún fékk tvær afmælisgjafir frá okkur foreldrunum, annars vegar dall með mismunandi laga götum og kubbum til að stinga í götin (man ekki hvað þetta heitir) og hins vegar maracas (hljóðfæri sem er hringla). Hún er mjög góð með þetta, ýmist hristir hana til og frá eða lemur henni í eitthvað. Ef þessu heldur áfram verður hún a.m.k. taktvissari en foreldrar hennar.
Í kvöld er þriðja nóttin sem ég sef í gestaherberginu. Ekki vegna erfiðleika milli okkar hjónanna heldur til að fá Arndísi til að hætta að vakna á nóttinni til að drekka.
Samkvæmt ráðleggingum á sem sagt að passa að hún sjái mig ekki og finni ekki lykt af mér þar til hún á að fá að drekka.
Þetta hefur gengið ágætlega hingað til, fyrri nóttina vaknaði hún nokkrum sinnum en fékk ekkert að drekka fyrr en undir morgun en í nótt svaf hún í 7 tíma án þess að vakna og gráta.
Þetta á víst að taka svona 3 daga að meðaltali og ef vel tekst til í nótt þá fæ ég að fara uppí hjónarúm aftur annað kvöld.
Í gærkveldi tók ég eftir því að Arndís Dúna var hás, síðan svaf hún mjög illa í nótt og var ennþá meira hás í dag ef eitthvað er. Hún þjáist sem sagt af hæsi :)
Hún hefur því fengið verkjarlyf með reglulegu millibili en þrátt fyrir það er hún mjög pirruð greyið.
Ég átti að halda mömmuklúbb í morgun en við frestuðum því vegna veikinda því ég bjóst við að flestar mömmurnar vildu ekki koma í smitbælið okkar :)
Arndís fór í fyrsta skiptið í langan tíma í pössun á sunnudagskvöldið. Hún hagaði sér víst ágætlega (nema að barnapían hafi verið að plata) en neitaði þó að borða og vaknaði nokkrum sinnum.
Ég var sjálf hálf stressuð og bjóst við símtali um að koma heim alveg þar til hún hafði sofnað. Þá tókst mér aðeins að slaka á.