október 25, 2003

Sundlaugarferð

Í gær fórum við með Arndísi Dúnu í fyrsta skiptið í sund. Henni líkaði mjög vel við það, hún fór ekkert ofan í með höfuðið heldur var bara í fanginu á okkur Gunna til skiptist. Hún er vön að fara í bað áður en hún fer að sofa en þetta var ennþá betra, risastórt baðker og mamma og pabbi bæði ofan í því :)

Arndís er líka orðin svakaleg dugleg að borða, fær alveg helling af rís- og hafragraut. Hún er líka búin að fá kartöflur tvisvar sinnum og líkar ágætlega, þó er betra ef þær eru blandaðar saman við hafragrautinn.

Á fimmtudaginn datt hún í fyrsta skiptið á hausinn, ég hélt á henni yfir lærin á mér og allt í einu rann hún niður á gólf. Henni brá mjög mikið og fór strax að gráta en hætti fljótlega þegar ég tók hana upp. Ég var aftur á móti sjálf lengur að jafna mig á þessu og var hálfskælandi í nokkrar mínútur. Hún fékk smá marblett á hausinn en ekki neina alvöru kúlu.

Hvers konar foreldri missir barnið sitt í gólfið??!! Dísös

Posted by Solla Beib at 11:23 EH | Comments (298)

október 17, 2003

Fyrirmyndarbarn ;)

Arndís Dúna hefur verið í svefnþjálfun undanfarna daga, hún er farin að sofna sjálf án þess vera á brjósti.

Í fyrradag byrjuðum við á þessu, planið var að láta hana gráta (ef þess þyrfti) í 5 mínútur, hugga hana án þess að taka hana upp, leyfa henni að gráta í 10 mín, hugga, síðan 15 mín og þá 20 mín.

Á 15. mínútna bilinu steinsofnaði hún, okkur Gunna til mikillar ánægju því það tekur mikið á taugarnar að hlusta á barnið sitt gráta og ekki gera neitt í því.

Í gærkveldi lagði ég hana í rúmið og hún bara steinsofnaði eftir nokkar mínútur án þess að það heyrðist múkk í henni. Í kvöld var sama sagan, ég vona bara að þetta sé eitthvað sem hún heldur sig við.

Á morgun erum við boðin í mat til foreldra Gabríels, stráksins sem ég passa, þau búa hér á stúdentagörðunum svo það er stutt að fara. Snorri, íslenskur strákur sem er hérna samþykkti að passa, ansi gott að fá svona fína barnapíu.

Það er annars ótrúlegt hvað henni finnst gaman í baði, ég er búin að kaupa handa henni smávegis af baðdóti (önd, bók og skjaldbökur) og hún dundar sér í baðinu við að reyna að borða dótið og drekka smávegis af baðvatninu með því. Sérstaklega finnst henni gaman að skjaldbökunum þegar það ýlir í þeim, þá skríkir hún afskaplega.

Posted by Solla Beib at 09:01 EH | Comments (286)

október 09, 2003

Engin eyrnabólga

Í dag fór ég með Arndísi Dúnu til læknis.
Í ljós kom að hún var ekki með eyrnabólgu en aftur á móti var hún hálsbólgu.

Hann sagði mér að gefa henni bara verkjalyf þar til henni liði betur.

Hálsbólga útskýrir hvers vegna hún vildi ekki drekka og borða mikið.

Læknirinn sagði einnig að mér væri alveg óhætt að gefa henni járnbættan hrísgraut tvisvar á dag og bæta jafnvel eplamauki út í. Ekki finnst mér það leiðinlegt :)

Posted by Solla Beib at 01:37 EH | Comments (288)

október 08, 2003

Hiti enn og aftur

Í gærkveldi fann ég að Arndís Dúna var óvenju heit, ég komst að því að hún var með 37.9°C. Í morgun var hún síðan aftur orðin nánast hitalaus svo en ég ákvað samt sem áður að panta tíma hjá lækninum því mér finnst ekki eðlilegt að hún sé með hita án þess að vera með flensu. Hún kvartar voðalega mikið svo ég veit að henni líður ekki vel greyinu.

Við fengum tíma í fyrramálið, sem betur fer því þegar ég mældi hana í kvöld þá var hún með 38.1°C.

Ég vonast bara til að fá botn í málið því það segja margir að börn eigi ekki að fá hita þótt þau séu að taka tennur.

Vona bara að eyrnabólgan sé ekki komin aftur.

Posted by Solla Beib at 11:07 EH | Comments (268)