september 28, 2003

Enn meiri veltingur

Í dag lá Arndís Dúna á maganum og velti sér á bakið. Ég hélt fyrst að það hefði bara verið tilviljun og setti hana aftur á magann. Eftir smá stund var hún aftur komin á bakið :)

Núna er ég búin að útbúa leiksvæði fyrir hana á stofugólfinu. Ég límdi saman tvær tjalddýnur og setti síðan teppi yfir svo hún getur velt sér alveg hægri vinstri.

Á þriðjudaginn kemur lítill strákur í heimsókn. Ég er að fara að passa hann tvo eftirmiðdaga í viku. Hann er orðinn 8 mánaða og farinn að hreyfa sig miklu meira en Arndís Dúna, ég vona bara að hann gangi ekki alveg frá henni.

Hún er því miður ennþá eitthvað kvalin og fær verkjarlyf þegar hún er farin kvarta mikið. Á morgun ætla ég að tala við lækninn og athuga hvað hægt er að gera.

Posted by Solla Beib at 04:49 EH | Comments (290)

september 26, 2003

Fyrsti maturinn

Í kvöld gaf ég Arndísi Dúnu fyrsta matinn fyrir utan móðurmjólkina auðvitað.

Mig hefur lengi langað að byrja að gefa henni en ákvað að reyna að bíða aðeins með það. Hún hefur bara verið eitthvað svo forvitin sjálf að smakka og opnar munninn ef eitthvað kemur nálægt honum.

Arndísi Dúnu virtist líka vel við matinn, hún opnaði að minnsta kosti alltaf munninn þegar skeiðin nálgaðist og smjattaði vel.

Hún fékk nú ekki mikið í þetta skiptið, bara rétt rúmlega teskeið af hrísgraut blandaða í nýkreista móðurmjólk (fresh is the taste ;)) en kláraði allt saman og hefði eflaust borðað meir hefði það verið í boði.

Á morgun fær hún kannski meir, ef hún er afskaplega þæg.

Hún fékk sem sagt fyrsta matinn sinn 4ja mánaða og 9 daga.

Posted by Solla Beib at 09:14 EH | Comments (491)

september 23, 2003

Veltingur

Í dag lá Arndís Dúna á bakinu á gólfinu inni í stofu, ég fór inn í svefnherbergi til að ganga frá þvotti og þegar ég kom til baka lá hún á maganum og var næstum komin út af lambsskinninu sínu.

Ég varð náttúrulega ótrúlega montin og ánægð. Hún er líka farin að snúa sér alveg hægri vinstri á skinninu og var komin alveg þversum.

Ohh, er til duglegra barn ;)

Posted by Solla Beib at 04:21 EH | Comments (453)

Æ, ó, aumingja Arndís

Í gær gerðist ýmislegt, fyrst kom kona í heimsókn til að spjalla við okkur Gunna og skoða Arndísi Dúnu. Þetta er svona heimsóknarprógramm sem er í boði reykingamanna í Santa Barbara (sígarettuskatturinn fer í þetta).

Í ljós kom að Arndís er farin að gera alla þá hluti sem 4ja mánaða börn eiga að vera farin að gera og í flestum tilfellum meira til. Við foreldrar hennar vorum náttúrulega að springa úr stolti yfir prinsessunni (en hún þarf nú ekki meira en að prumpa til þess ;)).

Eftir skoðunina fór ég með hana í bólusetningu, það gekk ágætlega fyrir sig, Arndís Dúna varð ekkert allt of ánægð en jafnaði sig fljótt og var farin að brosa framan í konuna sem sprautaði hana áður en hún fór heim.

Þegar heim kom gekk allt vel þar til 5 tímum eftir sprautuna, þá var eins og hún hefði verið stungin eða eitthvað (lengi að fatta) og hún rak upp skaðræðis öskur og var óhuggandi. Ég gaf henni verkjarlyf og hún grét nánast stanslaust þar til það byrjaði að virka. Ég mældi hana og í ljós kom að hún var með vægan hita. Í dag er hún ennþá með smá hita og er frekar lítil í sér svo við höfum bara haldið okkur heima.

Ég vona að hún verði betri á morgun því þá er ég að fara að passa 8 mánaða gamlan strák fyrir vinkonu mína sem býr hér á stúdentagörðunum.

Posted by Solla Beib at 04:17 EH | Comments (795)

september 22, 2003

Þreyta

Eftir Íslandsferðina hefur svefntími Arndísar verið mjög óreglulegur, við höfum verið að reyna að gera hann reglulegri, árangurslaust. Arndís Dúna vill bara sofa uppi í og hanga á brjóstinu á mömmu sinni allar nætur. Ef ég legg hana í rúmið sitt vaknar hún eftir klukkutíma og vill fá að sjúga meir.

Ég er sjálf ekki eins sátt við þetta því í fyrsta lagi fæ ég lítinn svefn og í öðru lagi eru geirvörturnar helaumar eftir allt saman.

Nú er bara að setja eitthvað svaka prógramm í gang til að venja hana af þessu.

Posted by Solla Beib at 10:36 FH | Comments (469)

september 20, 2003

Læknisskoðun

Í gær fór Arndís Dúna í enn eina læknisskoðunina.

Þetta var fjögurra mánaða skoðun og hún er núna orðin 13 pund og 15 únsur, læknirinn sagði að það væri alveg eðlileg þyngd.

Síðast þegar hún fór í skoðun (3ja mánaða skoðun) var hún 13 pund (gleymdi bara að skrifa um það).

Læknirinn sagði að eyrnabólgan væri alveg horfin og ekki einu sinni vatn í eyrunum lengur, við erum mjög ánægð með það.

Arndís er víst að því er virðist mjög heilbrigð ung dama. Græðgin sem hefur verið í henni undanfarið (brjóstunum á mér til mikilla ama) er eðlileg þar sem hún er að ná sér aftur eftir veikindin.

Posted by Solla Beib at 10:20 EH | Comments (486)

september 16, 2003

Sjónvarpssjúklingur

Áður en ég fór til Íslands glápti ég yfirleitt á sjónvarpið þegar Arndís Dúna var á brjósti. Á Íslandi var alltaf eitthvað svo mikið að gera að ég horfði nánast ekkert á sjónvarp.

Núna þegar við erum komin aftur til Kaliforníu settist ég niður til að gefa Arndísi Dúnu og kveikti á imbakassanum. Í ljós kom að það gengur bara alls ekki því hún vill horfa líka og hefur engan tíma til að drekka. Hún hélt meira að segja áfram að kíkja á sjónvarpið eftir að ég slökkti á því svona eins og til að athuga hvort eitthvað spennandi væri að gerast.

Þetta verður þá til þess að ég horfi minna á sjónvarp, sem er gott.

Posted by Solla Beib at 09:33 FH | Comments (393)

september 15, 2003

Íslandsför

Ýmislegt dreif á daga Arndísar Dúnu á Íslandi þótt hún tæki ekki eftir því sjálf.

Hún hitti fjölskylduna sína eins og hún lagði sig og fór í matarboð og heimsóknir hægri vinstri.

Hún fór Norður og hitti helling af fólki þar og náði sér í fyrstu pestina. Var veik í tvo daga með 38°C hita.

Þrátt fyrir veikindi fór hún að verða mun gjafmildari á brosin en hún var og vil ég, móðir hennar, þakka Norðurlandinu það :)

Síðan fór hún austur á Kópasker til að hitta ömmu Dúnu, þaðan var haldið til Austfjarða til að heimsækja fleira fólk. Frá Austfjörðum var síðan keyrt suðurleiðina til Reykjavíkur og komið við á Höfn til að hitta fleiri ættingja.

Þegar til Reykjavíkur var komið aftur var Arndís komin með hósta og mikið kvef. Hún fór til læknis og í ljós kom að hóstinn var sárasaklaus en aftur á móti var hún komin með eyrnabólgu. Hún fékk sýklalyf við eyrnabólgunni og líkar það vel og smjattar mikið enda er það dísætt.

Arndís Dúna var líka skírð á Íslandi af Hirti Magna Fríkirkjupresti. Skírnin og veislan fór fram heima hjá ömmu Arndísi í Máshólunum. Arndís Dúna var til fyrirmyndar, sat alveg sallaróleg í fanginu á mömmu sinni og horfði á prestinn mest allan tímann.

Ýmislegt annað dreif auðvitað á daga hennar en þetta er nú bara svona stutt upprifjun.

Posted by Solla Beib at 08:08 FH | Comments (488)