júní 29, 2003

Með bros á vör

Arndís Dúna er alltaf að verða meira og meira brosmild.

Hún brosir nú samt ekki alveg eftir pöntunum ennþá, meira svona í svefnrofunum og svo þegar henni finnst við foreldrar hennar vera eitthvað fyndin.

Henni finnst líka voðalega gott að vera í baði, að minnsta kosti kemur alltaf ánægjusvipur á hana þegar hún fer í bað með mömmu sinni.

Í dag þegar við vorum í baði rann hún aðeins til og fór með höfuðið ofan í vatnið eitt augnablik, hún varð nú hálf skelkuð en var þó fljót að jafna sig og virtist ekki verða meint af.

Posted by Solla Beib at 11:59 EH | Comments (292)

júní 26, 2003

Ferð til læknisins

Í dag fórum við með Arndísi til læknis, reyndar var þetta nú hálf óþörf læknisskoðun en svona er það nú stundum.

Málið var að hún hafði ekki haft hægðir í 6 daga og við höfðum áhyggjur því læknirinn var áður búinn að segja að allt að fjórum dögum væri í lagi.

Læknirinn sagði okkur að gefa henni einhvers konar stíl sem myndi valda samdrætti í þörmunum og framkalla hægðir.

Það gekk eftir :)

Hann skoðaði hana líka og vigtaði, hún er orðin 10 pund og 8,5 únsur sem er um það bil 4,7 kíló.

Posted by Solla Beib at 06:39 EH | Comments (328)

júní 25, 2003

Enn fleiri gjafir

Arndís Dúna er nú heldur betur búin að fá gjafir undan farið. Það kom sending að heiman frá ömmu Arndísi og Ugga frænda (og fjölskyldu) í sendingunni voru helling af fínum fötum og flest þeirra bleik eða rauð, aldeilis að Arndís bætir stelpufata safnið sitt.

Hún fékk líka afskaplega fínan svefnpoka frá Ingu Dóru og Birni, hann er frekar óvenjulegur, eiginlega eins og kjóll því það er pláss til að setja hendurnar út.

Í gær var okkur síðan boðið í kaffi til Braga og Jonnu. Steinunn dóttir Braga var líka stödd þar. Þau þrjú færðu Arndísi kindagæru til að liggja á þegar hún er á gólfinu, afkaplega mjúk og góð. Arndís á aldeilis eftir að geta leikið sér á henni.

Posted by Solla Beib at 03:22 EH | Comments (277)

júní 22, 2003

Myndbönd

Ég hef verið að taka nokkur myndbönd af Arndísi sem núna eru komin inn á vefinn, þið getið annað hvort smellt hérna eða smellt á Myndbönd hér til hliðar.

Myndgæðin eru því miður ekkert upp á sitt besta þar sem myndböndin eru tekin á litlu myndavélina mína.

Posted by Solla Beib at 01:02 EH | Comments (325)

Svefnvenjur

Arndís Dúna er orðin ansi góð í að vita mun á degi og nóttu.

Undanfarið hefur hún sofið 5 tíma dúr frá miðnætti og síðan drekkur hún og sofnar aftur í 3 tíma og drekkur og sefur aftur í rúma tvo tíma.

Þá er sko kominn tími á að vakna og vera í stuði. Hún sofnar reyndar stundum á brjósti en vaknar mjög fljótt ef ég reyni að leggja hana frá mér og vill láta sinna sér.

Posted by Solla Beib at 01:00 EH | Comments (330)

júní 17, 2003

1 mánaða

Í dag er hún Arndís Dúna 1 mánaðar gömul, aldeilis góður aldur það.

Hún fór líka í langan langan bíltúr með foreldrum sínum, lengsta bíltúr sem hún hefur farið í síðan hún kom út úr bumbunni á mömmu sinni.

Hún svaf næstum allan tímann og virtist líða afskaplega vel í bílstólnum sínum.

Ég keypti handa henni litla afmælisgjöf, dót til að skoða þegar hún er í bílnum, hún gat því miður ekki notið þess þar sem hún svaf bara og svaf :)

Posted by Solla Beib at 10:36 EH | Comments (376)

júní 11, 2003

Út að eyrum

Nú er ekki nokkur vafi um það, Arndís Dúna er farin að brosa :) Undanfarið hefur hún verið að læða einu og einu brosi til okkar en í dag þegar hún var búin að borða og var að leika við mig, brosti hún út að eyrum með galopinn munninn. Ég stefni að því að ná mynd af þessu brosi fljótlega, það bræðir mann algjörlega.

Í fyrrinótt var Arndís frekar óþekk, hún vakti til rúmlega 4 um nóttina og vildi vera að drekka allan tímann þrátt fyrir að hún væri löngu búin að tæma allar mjólkurbirgðir, ég hef hana reyndar grunaða að nota mig sem snuð þar sem hún hefur hingað til ekki fengið neitt svoleiðis.

Í nótt var hún hins vegar til fyrirmyndar og svaf eins og steinn á milli gjafa mér til mikillar ánægju. Við sváfum báðar til rúmlega hálf tvö í dag, ég held ég hafi verið að taka út svefnleysi hinnar næturinnar :)

Posted by Solla Beib at 02:52 EH | Comments (324)

júní 09, 2003

Fyrsta brosið

Á þriggja vikna afmælisdaginn sinn, laugardaginn 7. júní 2003, brosti Arndís Dúna til okkar í fyrsta skipti alvöru brosi.

Hún hefur oft brosað áður en það hefur bara verið magakitl.

Í gær og dag hefur hún haldið áfram að brosa öðru hvoru en það er víst ekki hægt að panta hjá henni bros því þau koma bara þegar hún vill :)

Posted by Solla Beib at 10:10 EH | Comments (408)

júní 02, 2003

Gjafaflóð

Arndís Dúna er búin að fá helling af pökkum undanfarið, hún fékk sendingu að heiman sem innihélt pakka frá Siggu frænku hennar, ömmu Dúnu og Diddu Ömmu (sem er svona plat amma, við systurnar kölluðum hana alltaf Diddu mömmu). Í pökkunum voru alveg rosalega flottir kjólar og peysur og bolir. Didda amma hafði heklað afskaplega fallegan kjól, peysu, húfu og sokka, allt í stíl. Við munum sko setja inn myndir þegar hún passar í þetta.

Arndís fékk líka fleiri pakka, Vala og Óliver komu með rosalega fínt handklæði og Árdís kom með risa pakka með helling af gjöfum, til dæmis fínan kjól, hringlu og handklæði. Ég held að Árdís hafi alveg flippað í barnabúðinni :)

Í morgun þegar Arndís Dúna vaknaði uppgötvuðum við Gunni að hún var búin að kúka, við erum ekki að tala um neinn smá kúk heldur "upp á bak og út um allt"-kúk. Það var sko ekki nóg að skipta bara á henni heldur þurftum við að fara með hana í sturtu til að ná öllu. Mér fannst á svipnum á henni að henni þætti nú ekkert æðislegt að fara í sturtu, hún var svona smávegis skelkuð en hún grét ekki neitt, kannski var hún bara of hissa.

Posted by Solla Beib at 02:21 EH | Comments (286)