Í dag fór Arndís Dúna í fyrsta alvöru baðið sitt. Hingað til hafði hún bara fengið svampabað sem henni líkaði ekkert allt of vel við.
Gunni fór með henni í bað og hún var afskaplega þæg allan tímann og grét ekki neitt, ekki einu sinni þegar þau fóru undir sturtuna til að skola sig.
Eftir baðið fékk hún að drekka og sofnaði síðan ofan á mallanum á mömmu.
Vikan hefur liðið mjög hratt og það var strax komið að læknisskoðun númer tvö.
Í ljós kom að Arndís Dúna er búin að þyngjast um hálft pund og læknirinn sagði að það væri bara mjög gott. Hún vegur því núna 8 pund og 8 únsur.
Ég þurfti að taka af henni bleyjuna til að vigta hana og tók hana síðan í fangið til að flytja hana inn í skoðunarherbergið þar sem ég ætlaði að setja bleyjuna strax á aftur.
Arndís Dúna var nú ekkert á því að bíða eftir bleyjunni og pissaði bara á mömmu sína á leiðinni :)
Læknirinn sagði líka að allt liti vel út, nema kannski ég, honum fannst ég eitthvað föl og spurði hvort ég hefði misst mikið blóð við fæðinguna. Ég held að þetta sé bara þreyta og ætla því að fara að lúlla núna þegar Arndís sefur.
Í dag fór Arndís Dúna í fyrstu læknisskoðunina sína utan sjúkrahússins.
Hún hagaði sér afskaplega vel, grét nánast ekkert þrátt fyrir að vera berháttuð.
Í ljós kom að hún var búin að ná sinni upphaflegu þyngd, 8 pundum, og var læknirinn frekar hissa þar sem börn eru yfirleitt búin að léttast um 8-10% á þessum tíma. Það er greinilegt að þetta er ofurbrjóstamjólk sem ég framleiði (7-9-13).
Skoðunin tók ekki langan tíma, læknirinn athugaði viðbrögð og svoleiðis og allt leit vel út. Næsta skoðun verður eftir viku.
Þann 17. maí kl. 06:34 árið 2003 kom Arndís Dúna í heiminn.
Fæðingin gekk mjög vel, Arndís Dúna var fljót að koma út, það liðu ekki nema rúmir 6 klukkutímar frá því að mamma hennar áttaði sig á því að hún væri komin með alvöru hríðir, þar til Arndís Dúna tók sinn fyrsta andardrátt.
Henni líður mjög vel, sefur mestan hluta sólarhringsins en vill þó helst vaka á næturna, móður hennar til mikillar gleði, ef eitthvað er.