febrúar 24, 2005

Bláa kannan

Undanfarið hef ég margoft lesið söguna um bláu könnuna fyrir Arndísi. Þetta er alveg stórmerkileg saga. Í stuttu máli má endursegja hana svo:

Það er lítil blá kanna uppi á hillu og henni leiðist. Hana langar því niður og biður hina ýmsu aðila um aðstoð, m.a. litla gamla manninn, litlu gömlu konuna, litla drenginn og litlu stelpuna. Þau neita öll að aðstoða könnuna jafnvel þó að hún hóti því að stökkva niður. Að lokum biður kannan litlu svörtu kisuna um hjálp og það þarf ekki að spyrja tvisvar að því hvað svarta kisan gerir, hún hjálpar auðvitað vesalings könnunni, hún hoppar upp á hilluna og ýtir könnunni niður. Næstsíðasta mynd bókarinnar er svo af könnunni brosandi þar sem hún fellur til jarðar og sú síðasta er af könnunni þar sem hún liggur á gólfinu í þúsund molum með tárin í augunum.

Nú er spurning mín einföld. Hvað er í gangi? Ég skil einfaldlega ekki boðskap þessarar sögu. Kannski er enginn boðskapur og höfundurinn reykti bara mikið af eiturlyfjum um það leyti sem hann samdi söguna eða ef til vill er þetta dulbúinn kommúnistaáróður eða ...

Mér hafa dottið í hug tveir hugsanlegir boðskapir (er hægt að hafa orðið boðskapur í fleirtölu?), báðir ólíklegir að mínu mati.

Sá fyrri er að þarna sé verið að kenna börnum að sækjast aldrei eftir neinu í lífinu því það endi bara með ósköpum, þ.e. að maður á að vera sáttur við sitt jafnvel þó maður sé lítil blá kanna sem er föst uppi á hillu alla ævi.

Sá síðari er öllu líklegri en ólíklegur þó en hann er sá að stundum viti aðrir betur, þ.e. ef enginn vill hjálpa manni nema lítill svartur köttur þá er kannski góð ástæða fyrir því, maður eigi því að hlusta á foreldra sína og ekki vera með neitt væl því annars brotnar maður í þúsund mola.

Ef einhver þarna úti er með nógu djúpt innsæi í heim bókmenntanna og getur varpað ljósi á þetta fyrir mig þá er ummælakerfið hér að neðan tilvalinn vettvangur fyrir þann aðila til að viðra skoðanir sínar.

Posted by gungun at 24.02.05 19:39
Comments

hæ hon' ég held að málið sé að þó einhver bjóðist til að hjálpa þá sé sá hinn sami ekki endilega vinur manns, og maður gæti lent verr út úr hlutunum en ella. Ekki treysta öllum í blindni.

Posted by: Guðrún K. at 25.02.05 03:41

Jebbs, og hvers konar boðskapar?? eru það!

Posted by: Védís at 25.02.05 12:49

Hmmm... Er þetta ekki bara enski málshátturinn:

"Be careful what you wish for, it might come true?"

:)

Posted by: Finnur at 28.02.05 19:12