febrúar 12, 2005

Meiri veikindi en enginn músaskítur

Arndís Dúna fékk aðra pest fljótlega eftir að hún var búin að jafna sig á hinni, í þetta skiptið var það ælupest, mjög svo ánægjulegt.

Við foreldrarnir smituðumst síðan eitthvað en ældum þó ekki.

Núna erum við þó öll orðin góð og frísk og tilbúin í næstu pest.

Músin, blessuð sé minning hennar, fór frá okkur fyrir rúmri viku, við náðum loksins að ginna hana í límgildru með hnetusmjöri, Óliver ofurhetja sá síðan um rest.

Það hefur því komið í ljós að þetta var bara ein mús því við höfum ekki fundið neinn skít eftir að þessari var komið fyrir kattarnef (ekki þó í bókstaflegri merkingu). Það er því sofið mun rólegar á okkar heimili þessa dagana.

Síðustu helgi komu Vala og Óliver í heimsókn, okkur öllum og þó ekki síst Arndísi Dúnu til mikillar ánægju. Hún er nefnilega ansi lunkin við að láta þau sinna sér, biður þau að lesa daginn út og daginn inn. Við foreldrarnir fullnýttum krafta þeirra og fengu þau til að passa Arndísi nánast allan laugardaginn á meðan við fórum á sjókayak námskeið.

Námskeiðið var mjög vel heppnað, veðrið lék við okkur og ég datt ekki nema einu sinni út (við vorum búin að fara í nokkra tíma fyrr í vikunni og æfa okkur í sundlaug að detta út í og koma okkur aftur upp í bátinn). Vatnið í lóninu sem við vorum að æfa í var mun kaldara og slímugra en í æfingarsundlauginni svo ég var mjög fegin að ná að halda mér að mestu yfir sjávarmáli.

Undir lok námskeiðsins fórum við út á sjó í 1 og 1/2 tíma. Ég varð auðvitað sjóveik og var orðin græn í framan eftir hálftíma, þrátt fyrir að sjórinn hafi verið nánast sléttur.

Það er alveg ábyggilegt að ég fæ mér sjóveikistöflur næst þegar ég fer í svona ferð því þetta skemmdi vissulega svolítið fyrir.

Yfir höfuð vorum við þó alsæl með námskeiðið og erum að íhuga að taka framhaldsnámskeið sem er á næsta fjórðungi.

Posted by Solla Beib at 12.02.05 14:24
Comments

Gott að heyra að það voru ekki fleiri mýs! Kærar þakkir fyrir góða helgi.

Posted by: Vala at 12.02.05 15:36