nóvember 20, 2004

Orðaforði

Verandi næstum orðinn fræðimaður þá verð ég að standa undir nafni og gera athuganir á barninu mínu.

Undanfarið hef ég verið að kanna orðaforða Arndísar og ýmislegt við hann finnst mér athyglisvert. Ykkur finnst þetta kannski ekkert athyglisvert en ég hugsa þessa færslu meira sem svona minnispunkt fyrir fjölskylduna.

Hún notar orðið book mikið en í fleirtölu talar hún um bækur. Ég hélt skrá um 61 fyrstu orðin hennar en þar af eru 21 á ensku, eitt á táknmáli og restin á íslensku. Hún gerir engan greinarmun á tungumálunum og virðist skilja íslensku og ensku jafnvel. Auk þess virðist frekar handahófskennt hvaða orð hún lærir á báðum tungumálum (eitt orðið kann hún á þremur, þ.e. meira) en sum orð hreinlega neitar hún að læra á íslensku ef hún kann það þegar á ensku, til dæmis var ég heillengi búinn að reyna að kenna henni að segja kalkúnn án árangurs þegar einn morguninn hún benti á smekkinn sinn (sem er með kalkúnamynd) og sagði turkey. Hún hefur sem sagt allan tímann hugsað: "Af hverju kallar hann turkey, kalkún? Það er best að ég rugli hann ekkert í ríminu og láti hann bara halda að ég viti ekkert um hvað hann er að tala, þá hættir hann kannski." Annað sem virðist slembið er hvaða orð hún lærir, t.d. lærði hún fljótt að segja apple en vill hvorki segja appelsína né orange, en hún borðar mjög svipað magn af hvoru tveggja.

Einnig er áhugavert að skoða hvaða orð vantar á listann. Þau eru ansi mörg þannig að ég ætla ekki að skrifa þau öll upp en t.d. eru engir litir, engar tölur, fáar sagnir (bara datt og sitja), engin hreyfiatviksorð (er það flokkur?) eins og upp, niður, hægri, vinstri ("upp" og "down" hefur reyndar bæst í hópinn nýlega).

Þetta er nú orðið bara ágætt held ég en að lokum læt ég fylgja listann af 61 fyrstu orðunum hennar Arndísar í engri sérstakri röð. Auðvitað verður að koma fram að þessi listi hefur örugglega óeðlilega hátt hlutfall af íslenskum orðum því hún virðist hafa töluverðan orðaforða á ensku sem ég þekki ekki því hún lærir fullt af orðum á leikskólanum sem koma ekkert upp í daglegu tali, t.d. eins og kalkúnninn. Enn eitt sem bjagar flokkun eftir tungumáli er náttúrulega að mörg orð eru eins á báðum, t.d. halló, mangó og banani.

Mamma, pabbi, meira, more, meira á táknmáli, maís, ís, banani, apple, peysa, hat, skór, head, voffi, bíbí (notað fyrir fugl), lóa, mangó, blóm, hippo, afi, amma, snudda (dudda), strætó, datt, róló, bee, book, bækur, api, ball, milk, bolur, ostur, naggar, bumba, belly, all done, búið, mommy, daddy, cracker, mús, bunny, skák, póstur, halló, bæbæ, egg, mine, kaka, sitja, tree, nei, no, yes, já, snack, halló, cheese, buxur, turkey.

Fyrir utan þessi orð þá þekkir hún að auki nöfn allra sem hún umgengst, dýrahljóð helstu dýra og nöfn persóna (t.d. Elmo og Bubbi Byggir). Einnig hafa bæst fullt af orðum við eftir að ég hætti að halda listann en nú er einmitt erfitt að halda utan um þetta því orðunum fjölgar alveg gríðarlega hratt þessa dagana.

Posted by gungun at 20.11.04 11:23
Comments

Ekki veit ég hvort ykkar er duglegra þú að skrifa þetta eða Arndís að tala.PS eins gott að hún kunni að segja amma.bæbæ.

Posted by: Amma Dúna at 20.11.04 17:21

Gaman að þessu... Uggi Gunnar er einmitt nýfarinn að segja langar setningar en sú fyrsta var að sjálfsögðu: "Stór bíll, pabbi á". Þú getur rétt ímyndað þér hvort ég hafi ekki verið stoltur faðir.

Posted by: Bjarni bróðir at 21.11.04 01:01

Amma Dúna: Hún segir A Dúna þegir hún segir nafnið sitt þannig að það ætti að vera auðvelt að láta hana segja amma Dúna!

Bjarni: Sonur þinn veit greinilega hvað er mikilvægt. Ég þarf að kenna Arndísi að segja, "flott jafna, pabbi leysa" eða eitthvað álíka.

Posted by: Gunni Beib at 23.11.04 17:36