Arndís er búin að vera í löngu fríi frá leikskólanum, það var nefnilega lokað á fimmtudag og föstudag vegna vinnudaga leikskólakennaranna og í gær var verkamannadagur hér í Bandaríkjunum. Við vorum því öll farin að hlakka til að koma Arndísi Dúnu aftur í leikskólann í dag. Í gær tók ég þó eftir smá útbrotum á litlu dömunni, þau voru mest áberandi á bakinu á henni en sem betur fer ekki upphleypt. Mér fannst líklegt að þetta væri út af sprautunni sem hún fékk fyrir tæpum 2 vikum og eftir að hafa talað við lækni í dag (Arndís mátti ekki fara í leikskólann fyrr en ég talaði við lækni) þá er nánast öruggt að um aukaverkanir vegna bólusetningar er að ræða. Ég ætla því að fara með Arndísi í leikskólann núna eftir hádegi þegar hún vaknar af lúrnum sínum.
Leikskólinn hefur gengið ágætlega nema síðasta miðvikudag, þá var Arndís eitthvað voðalega leið og vildi bara hanga í pilsfaldinum mínum. Ég þurfti því að sækja hana snemma. Kannski var það líka út af þessum sprautum, hver veit.
Í síðustu viku tókum við eftir því að farið var að sjást í 3 nýjar tennur hjá Arndísi Dúnu, 3 harðjaxla til að vera nákvæmur.
Hún hefur líka verið eitthvað lystarlaus undanfarna daga og ekki sofið eins vel og hún ætti að gera, 4 daga í röð var hún vakandi um miðja nótt í 2-4 tíma, ekki gaman fyrir foreldrana. Þetta er eflaust eðlilegt, líklega bara sambland af tanntöku og aukaverkunum eftir bólusetningu.
Hundaæðið hefur haldið áfram, við foreldrarnir höfum líka gert ýmislegt til að ýta undir það eins og að kaupa bækur um hunda sem við höfum þurft að lesa aftur og aftur, farið að skoða hunda og svo eru myndir af hundum um alla veggi :)